Lífrænn úrgangur & pakkningar

Lífrænn úrgangur

Veitingastaðir sem taka þátt í verkefninu Leifur Arnar skuldbinda sig til þess að flokka lífrænan úrgang og koma honum í réttan farveg. Þessi skuldbinding er í takt við nýja löggjöf um meðhöndlun úrgangs sem tekur gildi 1. janúar 2023 og verður þá bannað að urða lífrænan og lífbrjótanlegan úrgang á Íslandi. 

Hér eftir er því gríðarlega mikilvægt fyrir veitingastaði að minnka matarsóun. 

Lífrænn úrgangur sem fellur til á Akureyri fer til jarðgerðarstöðvarinnar Moltu ehf. Sjá nánar um ferli lífræns úrgangs á vef Moltu

 

Pakkningar

Veitingastaðir skuldbinda sig einnig til að nota pakkningar fyrir leifarnar og take-away pantanir úr pappa sem mega fara í jarðvegsgerð. Langflestir veitingastaðir bjóða nú þegar upp á þess háttar pakkningar og það er vel. Hins vegar þarf að vera skýrt hvernig flokka eigi umbúðirnar og þarf það að vera sýnilegt.

Flokkun pakkninga úr pappa:

Fyrsta val er að þrífa pakkninguna og flokka sem pappa.

Ef ekki er talið hægt að þrífa pakkninguna má flokka hana með lífrænum úrgangi.

 

Mikið hefur verið um pakkningar úr lífplasti (plastflokkar merktir: PLA, PHA, PHB, PHBV, PCL, PBS og PBAT), en þessar pakkningar mega alls ekki fara í jarðvegsgerð. Þetta er vert að benda á þar sem þessar pakkningar eru oft markaðssettar sem tilvaldar fyrir jarðvegsgerð. Niðurbrot þessara umbúða verður einungis við ákveðin skilyrði sem ekki eru fyrir hendi í jarðgerðarstöðinni Moltu ehf.